Föstudagur, 29. nóvember 2019
Greinaflokkur minn um Namibíu í Mbl. 1977: Namibía undir járnhæl kynþáttakúgunar, I-III
Fyrir 42 árum reit ég ýtarlega um sögu og ástand Namibíu undir kúgunarstjórn Suður-Afríku (blaðið The Namibian var stofnað 1985!). Endurbirti þetta nú, í þremur hlutum eins og upphaflega, í heilsíðugreinum í Mbl. 26. og 28. júlí og 11/8 1977). Þetta sýnir vel bakgrunn þess, sem menn hafa nú frétt af ástandinu í Namibíu, fátækt þar og uppivöðslusemi auðhringa eins og Samherja, en í greinaflokknum er sagt frá nýlendustefnu Þjóðverja og kúgunarveldi hinna hvítu Suður-Afríkumanna og frá þjóðréttarstöðu landsins til 1950 og áfram eftir það, ennfremur þjóðfrelsishreyfingu og skæruhernaði þar, pyntingum og valdníðslu S-Afríkana o.m.fl.*
Yfirskrift greinaflokksins var
Namibía undir járnhæl kynþáttakúgunar
og nafn fyrstu greinarinnar, sem hér með hefst (á ný!):
Suður-Afríka heldur áfram nýlendustefnu sinni í trássi við alþjóðalög
AMNESTY INTERNATIONAL hefur sent frá sér nýja skýrslu um ástand réttarfarsins í Namibíu (A.I. Briefing on Nambia. Apríl 1977. 15 bls). Þessi fyrrum nýlenda Þjóðverja (18841915), sem nefndist Suðvestur-Afríka, hefur opinberlega fengið nafnið Namibía skv. ákvörðun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í júní 1968.
Það, sem einkum veldur áhyggjum Amnesty International yfir ástandinu í Namibíu, er (1) fangelsun manna án málshöfðunar til að brjóta á bak aftur pólitfska mótstöðu við stjórn Suður-Afríku í landinu, (2) pyntingar pólitískra fanga, (3) beiting suðurafrískra öryggislaga í namibísku landi, (4) að Namibíumenn dæmdir fyrir pólitískar sakir hljóta fangelsisvist í Suður-Afríku fremur en í Namibíu, (5) beiting dauðarefsingar fyrir bæði glæpi og ákveðin pólitísk afbrot, (6) yfirlýst neyðarástand" í þremur héruðum landsins.
Land, þjóð og skipting landsgæða.
Namibía er u.þ.b. átta sinnum stærri en Ísland. Árið 1974 voru íbúarnir áætlaðir um 852.000 manns [eru nú, 2019, orðnir tæplega 2,6 milljónir], þar af 88% svartir og 12% hvítir. Landinu er skipt milli íbúanna í s.k. heimalönd" (bantustans). Eitt þessara heimalanda, sem nær yfir 43% allrar Namibíu, er aðeins ætlað hvítum mönnum. Þá eru 17% landsins undir beinni stjórn S-Afríku, þ.á m. demants við ströndina. Undir svarta meirihlutann heyra hins vegar 40% landsins, og skiptast í 10 heimalönd eitt fyrir hvern þjððflokk þeirra.
Efnahagur Namibíu byggst mest á náttúruauðlindum landsins: demöntum, kopar og úraníum. Námaiðnaðurinn lýtur stjórn suðurafrískra og fjölþjóðlegra fyrirtækja, en er algerlega kominn undir hinu ódýra vinnuafli svartra manna. Næst námavinnslu hefur landið mestar tekjur af fiskveiðum og landbúnaði. Hinn afríski meirihluti hefur þó lítt getað notíð auðæfa landsins og verður að treysta á akuryrkju og illa launaða ákvæðisvinnu til að draga fram lífið.
Helztu viðskiptalönd Namibíu fyrir utan S-Afríku eru Bandaríkin, Vestur-Þýzkaland, Bretland og Japan, segir í skýrslu A.I.
Þjóðréttarstaða landsins.
Suður-Afríkumenn hernámu Suðvestur-Afríku í fyrri heimsstyrjöldinni, 1915. Eftir stríðið var landið lýst verndarsvæði Þjóðabandalagsins, sem fól Suður-Afríku að stjórna þar í umboði sínu. Skv. skilmálum umboðs þessa skyldi Suður-Afríka efla eftir fremsta megni bæði efnalega og siðferðislega velferð og félagslegar framfarir íbúa landsvæðisins" og senda Þjóðabandalaginu árlegar skýrslur um ástandið.
Þjóðabandalagið leystist upp 1939, og með stofnun Sameinuðu þjóðanna 7 árum seinna tóku þær sér þann rétt, sem bandalagið hafði haft til eftirlits með framkvæmd umboðsstjórnarinnar. Suður-Afríka hafnaði hins vegar yfirvaldi SÞ og að hlíta þvl kerfi, sem þær höfðu tekið upp um umboðsstjórnir í stað hins eldra skipulags um verndarsvæði. SÞ skutu þá málinu til Alþjóðadómsins í Haag til að fá skorið úr þjóðréttarstöðu landsins. Niðurstaða dómsins (árið 1950) hefur oft verið mistúlkuð sem staðfesting á óskoruðum yfirráðum S-Afríku. Að vísu taldi dómurinn, að landsvæðið þyrfti ekki að innlimast í umboðssvæðakerfi SÞ, en á hinn bóginn var S-Afríku gert skylt að haga stjórn Suðvestur-Afríku í samræmi við ákvæði upphaflega umboðsins og gefa SÞ árlega skýrslu sem arftaka Þjóðabandalagsins. S-Afríkumenn neituðu aftur að láta undan, og ekki tókst heldur að leysa málið með samningaviðræðum.
Árið 1966 drógu SÞ til baka það umboð, sem S-Afríku var falið 46 árum áður varðandi landstjórn Suðvestur-Afríku, og lýstu þvi yfir, að þaðan í frá skyldi landið skoðast í beinni umsjá SÞ. En S-Afríka hafnaði valdi SÞ eins og fyrri daginn og neitaði að viðurkenna afturköllun umboðsins.
Í nýrri ályktun í júní 1971 lýsti Alþjóðadómstóllinn því yfir, að áframhaldandi landsyfirráð S-Afríku í Namibíu væru ólögmæt. Dómurinn minnti jafnframt öll aðildarríki SÞ á skyldu þeirra til að forðast allt það, sem skoðazt gæti sem viðurkenning á lögmæti hinnar ólöglegu stjórnar S-Afríku í Namibíu eða verið stuðningur við hana. Það væri fráleitt að túlka þennan úrskurð dómsins sem einberan pólitískan þrýsting til þess eins að stuðla að sjálfstæði landsins, heldur er þetta fyrst og fremst vitnisburður um, að S-Afríka hefur ekki aðeins frá siðferðislegu, heldur einnig lagalegu sjónarmiði fyrirgert umboði sínu til landsforræðis með því að rjúfa skuldbindingar sínar við skilmála Þjóðabandalagsins og traðka á mannréttindum hinna svörtu kynþátta Namibíu.
SÞ og Namibíu-ráð SÞ hafa reynt að þvinga S-Afríkustjórn til að leggja upp laupana í Namibíu, en lítinn árangur hefur það borið, enda hafa sum aðildarríkin styrkt þessa nýlendustjórn með viðskiptum við hana, eins og áður kom fram.
Stjórnmálahreyfingar í Namibíu.
S-Afríkumenn hafa eftir 1960 stöðugt aukið afskipti sín af Namibíu með því að setja undir beina stjórn sína öll helztu málefni ríkisins, s.s. lögreglu-, varnar- og utanríkismál, og jafnframt innleitt suðurafrísk öryggislög til að kúga landsmenn til hlýðni.
Með stofnun áðurnefndra bantustans (frá 1967) hefur apartheid-stefnunni verið framfylgt í Namibíu. Sérhvert bantustan hefur takmarkaða sjálfstjórn undir eftirliti S-Afríku, en höfðingjar ættanna ráða mestu í innri málum. Í þrem heimalandanna" hafa verið sett á stofn löggjafarráð stjórnskipaðra fulltrúa ættflokkanna.
Þegar S-Afríka tók að styrkja völd sín í Namibíu á 7. áratugnum, kom upp vel skipulögð þjóðernishreyfing í landinu með miklu fjöldafylgi. Stærstu samtökin eru SWAPO (Þjóðarsamtök Suðvestur-Afríku). Þrátt fyrir stöðugar árásir, hótanir og varðhald eða fangelsun margra leiðtoga hreyfingarinnar, hefur hún haldið áfram að starfa og auka fylgi sitt í Namibiu. Síðan 1966 hefur einn armur SWAPO staðið fyrir skæruhernaði frá nágrannalöndum. Namibíuráð SÞ hefur viðurkennt SWAPO sem hinn eina lögmæta fulltrúa Namibíuþjóðar, en SÞ sjálfar hafa krafizt þess, að SWAPO hafi forystuhlutverk, þegar tekin verður ákvörðun um stjórnarskrármálefni landsins.
Fleiri þjóðfrelsishreyfingar njóta verulegs stuðnings í landinu, þ.á m. SWANU (Þjóðernissamband Suðvestur-Afríku), sem hefur svipaða stefnu og SWAPO, en nýtur mests fylgis meðal Herero-ættflokksins. Önnur samtök, Þjóðernisbandalag Namibíu (NNC), sem nokkrir smáflokkar mynduðu, njóta einnig verulegs fylgis meðal Herero-manna, undir forystu höfðingja þeirra, Kapuuo. Hann er andvígur SWAPO, sem hann telur Ovambomenn (þjóðflokk nyrzt I landinu) ráða lögum og lofum í, og hefur Kapuuo tekið þátt í mörgum viðræðum um sjálfstæði Namibíu, er S-Afríkustjórn hefur komið af stað.
Þjóðernisvitund fer vaxandi. Langvinnt allsherjarverkfall afrískra verkamanna i kjölfar þess, að S-Afrika neitaði að hlíta úrskurði Alþjóðadómsins 1971, lamaði námaiðnað landsins. Í ágúst 1973 hvatti SWAPO til þess, að menn tækju ekki þátt í kosningum til löggjafarráðs Ovambolands, og fengu þessi tilmæli frábærar undirtektir. Aðeins 2,3% kosningabærra manna neyttu atkvæðisréttar síns.
Eftir að hvítir menn misstu völdin Í Angóla og baráttan gegn S-Afríku magnaðist, jafnt í Namibíu sem á alþjóðavettvangi, hafa stjórnvöld reynt að tryggja þau úrslit málsins, að þrátt fyrir væntanlega sjálfstæðisyfirlýsingu verði Namibía bundin á klafa S-Afríku. Síðan 1975 hafa farið fram viðræður fulltrúa svörtu ættflokkanna sem og hins ríkjandi Þjóðarflokks hvítra manna um nýja stjórnarskrá fyrir landið. Öll stjórnmálasamtök svertingja hafa verið útilokuð frá viðræðunum, þ.á.m. SWAPO, og hefur hreyfingin lýst því yfir, að hún muni virða þær að vettugi. Ráðstefna þessi hefur þegar ákveðið, að Namibía hljóti sjálfstæði 1. janúar 1978 og að þá taki við völdum bráðabirgðastjórn ráðstefnufulltrúanna. En þar sem SÞ og Einingarsamtök Afríkuþjóða hafa fordæmt ráðstefnuna, er hætt við að slík ríkisstjórn eigi erfitt um vik að fá viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Vandamál Namibíu verða vart leyst án þátttöku SWAPO.
Refsilöggjöf nýlendukúgaranna
Þótt stjórn S-Afríku yfir Namibíu sé talin ólögmæt á alþjóðavettvangi síðan 1966, þá halda S-Afríkumenn áfram að beita fullu löggjafar-, dóms- og framkvæmdavaldi í landinu. Vegna hörku stjórnvaldanna og lítillar virðingar þeirra fyrir svarta kynþættinum er þetta afdrifaríkt fyrir Namibíumenn. Skýrsla Amnesty International lýsir því alvarlega ástandi, sem nú ríkir i þessum efnum þar í landi. Verða tekin hér fáein dæmi um lagasetninguna og málsmeðferð fyrir dómstólum Namibíu.
Mörg suðurafrísk öryggislög eru látin ná til Namibíu, þar sem þeim er beitt til að koma undir lás og slá þeim Namibíumönnum, sem eru andstæðingar apartheid og áframhaldandi suðurafriskrar stjórnar. Ein þessara laga eru hryðjuverkalögin frá 1967 (sem voru reyndar látin virka aftur fyrir sig til 1962, svo að unnt væri að dæma einn forystumann þjóðfrelsisbaráttunnar og 36 aðra Namibíumenn, sem þá voru hafðir í varðhaldi án málssóknar í Pretoríu). Skv. ákvæðum þessara laga er hryðjuverk" (terrorism) skilgreint mjög lauslega sem sérhver sú athöfn. sem líkleg er til að stofna lögum og reglu í hættu". Meðal þeirra brota, sem undir þetta falla skv. lögunum, er t.d. fjandskapur milli hvítra og annarra íbúa lýðveldisins," að valda nokkrum manni eða ríkinu verulegu tjóni" eða fordómar gagnvart nokkurri framleiðslu eða fyrirtæki", og gildir þetta hvort heldur sem brotið væri framið í S-Afríku, Namibíu eða utan landanna. Það var einnig kallað hryðjuverk að styðja eða hvetja til framgangs nokkurra pólitískra markmiða" eða félagslegra eða efnahagslegra breytinga, hvort sem væri með valdi eða samvinnu af hvaða tagi sem væri við erlendar ríkisstjórnir eða alþjóðastofnanir, t.a.m. Sameinuðu þjóðirnar.
Þeir, sem átt hafa hlut að atferli, sem kann að hafa leitt til ofangreindra afleiðinga, geta verið dæmdir sekir um þátttöku í hryðjuverkum. Er þá gert ráð fyrir, að þeir hafi framið verkið með ásetningi, nema þeir geti sannað, svo að ekki verði um villzt, að þeir ætluðust ekki til, að það hefði neinar þessara afleiðinga í för með sér. M.ö.o. hvílir sönnunarbyrðin á hinum stefnda, ef hann vill sýna fram á sakleysi fyrirætlana sinna, fremur en á ríkisvaldinu að sanna sekt hans.
Fleiri atriði gera hermdarverkalögin" víðtækari og áhrifaríkari og skýra það, hvers vegna mönnum stendur mest ógn af þeim af öllum suðurafrískum lögum. M.a. er þar kveðið á um, að þeir, sem liggja undir grun um hryðjuverk (skv. áminnztri skilgreiningu laganna) eða eru taldir búa yfir upplýsingum um hryðjuverk, verði að sæta varðhaldsvist án ákæru í ótilgreindan tfma. Eru þeir hafðir í haldi, þar til þeir hafa svarað öllum spurningum með fullnægjandi hætti". Engir dómstólar geta skipt sér af slíkum varðhaldsúrskurðum eða skipað fyrir um lausn fanga úr gæzluvarðhaldi. Þá er mönnum, sem ákærðir eru fyrir hryðjuverk, gert mjög erfitt fyrir með málsvörn sína.
Verði menn sakfelldir fyrir eitthvert brot gegn hryðjuverkalögunum, er lágmarksrefsing þeirra 5 ára fangelsi. Mesta refsing er dauðadómur.
(Frh. í 2. grein, sem birtist væntanlega á þessu Moggabloggi mínu ekki seinna en á morgun.)
Aths. Mynd frá Namibíu og landakort birtist með þessari 1. grein í greinaflokknum, en ekki tókst mér að afrita það hér, en sjá þessa útgáfu greinarinnar á tímarit.is.
Meginflokkur: Afríka | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Öfgastefnur og hryðjuverk | Breytt 2.12.2019 kl. 15:45 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein og vel til fundið að endurbirta hana nú.
Þorsteinn Siglaugsson, 29.11.2019 kl. 23:46
Þakka þér, Þorsteinn.
Jón Valur Jensson, 30.11.2019 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.