Mánudagur, 7. apríl 2008
Viðvaranir Karls biskups gegn stofnfrumumáli
Var Þjóðkirkjan með biskupinn í fararbroddi hlutlaus gagnvart ráðagerðum ráðherra og einkaaðila um að þrýsta á Alþingi til að leyfa 'hagnýtingu' á fósturvísum og tilraunir á þeim? Fjarri fer því. Merkt erindi herra Karls biskups inniheldur fjölda viðvarana gegn þeim sjálfsöruggu áformum róttækra rannsóknarmanna í ART Medica og jábróður þeirra í heilbrigðisráðuneytinu áformum sem nú hafa því miður litið dagsins ljós sem "löggjöf frá Alþingi"!!!
En hlustum á viðvaranir Karls biskups:
- Ljóst virðist vera að hér er gengið lengra í frjálsræðisátt en margar nágrannaþjóðir okkar hafa gert í þessum efnum. Miklir hagsmunir eru í húfi, og glögg grein er gerð fyrir því í greinargerð með frumvarpinu. Þó virðist sem ekki sé nægur gaumur gefinn að þeim siðferðilegu álitamálum sem hér liggja undir.
- Samkvæmt frumvarpinu er leyft að nota fósturvísa til að búa til stofnfrumulínur og til rannsókna á umframfósturvísum og til kjarnaflutnings, og sagt er í rökstuðningi að [að] baki þeim tillögum liggi veigamikil læknisfræðileg og þekkingarfræðileg rök. Þær heimildir hljóta að flokkast með mestu siðferðilegu álitaefnum í samtíðinni. Með slíkum heimildum er í raun verið að stíga skref inn á braut sem getur hæglega leitt vísindamenn og samfélagið í siðferðilegar ógöngur við minnsta frávik.
- Rannsóknum fleygir fram með miklum hraða og gefa fyrirheit um nánast óþrjótandi möguleika. En þeim mun meiri ástæða til að staldra við. Það að eitthvað er mögulegt og viðráðanlegt hefur ekki endilega í för með sér að það sé leyfilegt eða æskilegt. Við verðum að gefa gaum að afleiðingum með heildarhagsmuni lífsins í huga. Sú röksemd að réttlætanlegt sé að fórna smáum vísi að mannlegu lífi til hagsbóta fyrir heilsu fjölda manna getur ekki verið hin algilda regla.
- Hinn kristni mannsskilningur gengur út frá að manneskjan njóti mannhelgi, hversu óburðug sem hún er.
Og:
- Það hefur verið viðurkennd grundvallarregla að ekki sé heimilt að nota barn eða fóstur í rannsóknaskyni. Manneskja má aldrei vera hráefni eða tæki til annarra gæða. Ræktun og notkun stofnfruma vekur spurningar um mannhelgi og virðingu fyrir lífinu. Grundvallarhugsunin um virðingu fyrir manngildinu og lotningu fyrir lífinu verður að ráða för.
Og:
- Það hlýtur að vera siðferðilegt álitamál hvort skilgreina á tímamark (14 daga) sem skilur á milli þess hvort gera megi rannsóknir á fósturvísum eða ekki, að eftir þetta tímamark á þroskaferlinu sé fyrst farið að tala um mannlegt líf, þ.e.a.s. eftir myndun fyrsta vísis að taugakerfi með myndun frumrákarinnar. Það hlýtur að teljast álitamál hvort löggjafinn getur haldið áfram að álykta sem svo að fósturvísar öðlist aðra og veigameiri siðferðilega stöðu eftir áðurnefnt tímamark en skilgreini það líf sem þó er kviknað við frjóvgun ekki sem mannlegt líf. Við frekari þróun löggjafar í þessum efnum, sem frumvarpið bendir til, verður að teljast aðkallandi að brjóta þessa skilgreiningu til mergjar á sambærilegan hátt og skilgreiningu á dauða.
Ein stærsta siðferðilega spurningin hlýtur að liggja í því hvort forsvaranlegt sé að notast við skilgreininguna á tímamarkinu (og frumrákinni) sem viðmiðun á því hvort um mannlega veru er að ræða eða ekki. Hingað til hafa tilraunir með mannlegar verur verið bannaðar og stafar það af því hvernig mannhelgin í trúarheimi fólks er yfirleitt algjör, jafnvel hvað varðar hið minnsta nýkviknaða líf eða vísi mannlegs lífs.
Lestrinum er langt frá því lokið.
- Nauðsyn með lagasetningu þessari hlýtur að byggja á líkum á framförum í læknavísindum hvað varðar frjóvgun eða æxlun eða því hversu lífvænlegir fósturvísar geti verið sem verða til við glasafrjóvgun. Í því sambandi má spyrja hvort ekki sé ástæða til að skoða út frá siðferðilegu sjónarhorni þá tækni sem krefst þess að búnir séu til svo margir umfram fósturvísar sem raun ber vitni?
Og:
- Vakin er athygli á því að þótt löggjöf í þessum efnum sé nú til endurskoðunar í nokkrum nágrannalöndum okkar er ekki þar með sagt að nágrannar okkar muni ganga jafn langt og hér er lagt til. Einnig skal varað við því að víkka að óþörfu tilganginn með núverandi lagasetningu þar sem forsendan er tæknifrjóvgun og rannsóknir henni tengdar. Telja verður æskilegra að efna til sérstakrar lagasetningar um stofnfrumurannsóknir ef heimildir til rannsókna verða gerðar svo víðtækar sem hér getur, enda yrðu þær heimildir gefnar á öðrum og nýjum forsendum miðað við frumvarp þetta. Á það skal einnig bent að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það hefur ekki verið til lykta leitt hvort heimild til kjarnaflutnings í eggfrumu brjóti í bága við ákvæði 18. gr. Oviedo-sáttmálans, sem Ísland er aðili að. Í því ákvæði er lögð sú skylda á aðildaríki sáttmálans að virða vernd fósturvísa og lagt er bann við því að fósturvísar verði búnir til í rannsóknarskyni.
LOKAKLAUSA BISKUPSINS (það feitletraða gæti heitið góð, almenn kynning á viðhorfi hans):
- Heimild til þess í undantekningatilvikum að einrækta fósturvísa í þeim tilgangi að búa til stofnfrumulínur sem nýst geta til lækninga eða til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði er vissulega háð þeim fyrirvara að þeim skuli aldrei komið fyrir í legi konu. Það er mikilvægur fyrirvari og verður að teljast ófrávíkjanleg siðferðileg lágmarkskrafa. En hér er samt gengið fram á ystu nöf sem verðskuldar að staldrað sé við. Hvert leiðir það okkur að leyfilegt verði að rækta fósturvísa? Við hljótum líka að spyrja okkur frá hverju leiðir það okkur líka þegar við getum búið til þær aðstæður að það kviknar líf og það sé í einhverjum tilfellum réttlætanlegt að kveikja það líf í þágu þekkingar og lækninga. Okkur ber skylda til að íhuga þetta vel í ljósi kristins mannskilnings sem heldur fram helgi lífsins og heilögum tilgangi lífsins. Því sjónarmiði ber að halda á lofti í allri umræðu um ákvarðanir eins og leyfa einræktun fósturvísa í þessum tilgangi.
Þingmenn á Alþingi Íslendinga báru ekki gæfu til að halda þessum sjónarmiðum á loft við afgreiðslu málsins því fór svo endalaust víðs fjarri. Vísa ég hér með til greinar minnar um þetta nýlega þingmál, sem og til annars pistils, þar sem einnig er að' finna allýtarlega umræðu á eftir.
Meginflokkur: Stofnfrumur fósturvísa og tæknifrjóvgun | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:15 | Facebook