Egill Jónsson á Seljavöllum látinn

Mætur maður og vinsæll er fallinn frá, alþingismaðurinn fyrrverandi Egill Jónsson á Seljavöllum í Nesjum, lengi formaður fjárveitinganefndar. Ég vil minnast Egils vegna mikilvægrar þátttöku hans í því, sem sneri að vernd fæddra sem ófæddra barna. Áður en ég kynntist honum, hafði hann ásamt samflokksmönnum sínum, Salóme Þorkelsdóttur (síðar forseta Alþingis), Lárusi Jónssyni (síðar bankastjóra) og Árna Johnsen, gerzt meðflutningsmaður með Þorvaldi Garðari Kristjánssyni að lagafrumvörpum á Alþingi um takmörkun s.k. fóstureyðinga af félagslegum ástæðum. Hafði Þorvaldur áður (ekki seinna en á þinginu 1978–1979*) haft frumkvæði að slíku frumvarpi, með afar vönduðum undirbúningi, en þau slógust í för með honum. Alls var frumvarpið, í lítt breyttri mynd gegnum tíðina, flutt um sex sinnum, m.a. 1985 (þá af Þorvaldi, Agli og Árna).

Fyrir þetta, þótt jafnvel eitt væri, hlýt ég að bera mikla virðingu fyrir Agli Jónssyni, því að það þarf þor og dug til þess að fylgja slíkum málum, þegar heiftúðlega er barizt gegn lífsréttri ófæddra af einsýnum, félagspólitískum öflum, sem þurftu ekkert á meirihlutastuðningi að halda til að leyfa sér að ausa yfir málsvara saklausra barna í móðurkviði hneykslunarorðum og fordæmingu. Þótt Alþingisforsetinn Þorvaldur Garðar Kristjánsson sé sá, sem höfuð og herðar ber yfir lífsverndarsinna í hópi alþingismanna, ber að meta að verðleikum allt það góða, sem reynt hefur verið, bæði hjá þessum fimmmenningum og eins hjá þingmönnum Borgaraflokksins, sem um 1987–1990 fluttu nokkur frumvörp um fósturverndarmál, en þar var um að ræða þingmennina Guðmund Ágústsson lögfræðing, Kolbrúnu Jónsdóttur, Ásgeir Hannes Eiríksson verzlunarmann og Huldu Jensdóttur, forstöðukonu Fæðingarheimilisins í Reykjavík.

Nú um langar stundir hefur ekkert verið gert í þessum efnum á Alþingi, en það þarf sannarlega að breytast. Vera má, að menn öðlist síðar svo mikinn skilning á þessum málum (og þó ekki án baráttu og umfram allt fræðsluherferðar), að hér verði löggjöfinni umbylt og lífi hundraða ófæddra barna bjargað á ári hverju; en vera má, að það gerist ekki fyrr en neyðin hreki okkur til þess, þegar illar afleiðingar fósturdeyðinga eru farnar að dynja svo yfir þjóðina, í formi fólksfækkunar, ófrjósemi vegna aðgerðarinnar og annarra eftirkasta, að jafnvel þeir blindu fari að sjá.

En Egill Jónsson var ekki aðeins málsvari hinna ófæddu, hann studdi einnig hjálparstofnunina Móður og barn og starf hennar fyrir einstæðar mæður. Ég kynntist honum fyrst sem stjórnarmaður þar vegna fundar sem Móðir og barn átti með fjárlaganefnd; þar var hann einn þeirra sem tóku erindi okkar ljúflega og hlynntir voru framlagi til þess starfs, en sú sjálfseignarstofnun var mest með 11 leiguíbúðir á sínum vegum fyrir 13 konur og börn þeirra og niðurgreiddi leiguna verulega, auk annarra verkefna.

Egil hitti ég alloft síðar um árin á förnum vegi, ræddum þá m.a. málefni austur í Skaftafellssýslu, og minnist ég hans sem afar viðkunnanlegs, háttvíss manns og viðræðugóðs. Samúð mín er með ættingjum hans og ástvinum. Blessuð sé minning Egils Jónssonar. Drottinn gefi dánum ró, en hinum líkn, sem lifa.
___________________

* 208. mál á 100. löggjafarþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég þekkti Egil frá Seljavöllum ekki neitt en þetta greinarkorn þitt vekur góðar tilfinningar í hans garð. En að öðru. Það var algjör einhugur í Borgaraflokknum um lífsverndarmálin. Ég hef stundum hugleitt hvernig stóð á því að svo víðtæk og óumdeild samstaða náðist í þessum stóra hóp í máli sem var jafn umdeilt í samfélaginu.  Við ræðum það síðar.

Sigurður Þórðarson, 16.7.2008 kl. 23:50

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér innleggið, gamli flokksbróðir! Kynntumst við ekki einmitt í Borgaraflokknum? Ég man ekki betur. Einhugurinn þar um lífsverndarmálið var nokkuð góður meðal þingmannanna, en ekki fullkominn á öllum ráðstefnum flokksins, sér í lagi ekki á Hótel Sögu, en miklu betri á fundinum í Glæsibæ. Þó var heilbrigðisnefnd (um eða upp undir 10 manna) flokksþingsins á Hótel Sögu afar einhuga um samþykkt sína allýtarlega, sem ég á eftir að birta hér við gott tækifæri. En þetta er mál málanna í mínum huga – fyrir utan sjálft sjálfstæðismálið: að land og borgarar verði ekki ráðin undan lýðveldinu til að lúta hinu ofurbústna Brusselvaldi.

Jón Valur Jensson, 17.7.2008 kl. 01:36

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég talaði við höfðingjann sjálfan Þorvald Garðar Kristjánsson í dag, og talið barst meðal annars að Evrópubandalaginu. Hann kvaðst aldrei vilja upplifa það, að Ísland yrði partur af því.

Jón Valur Jensson, 17.7.2008 kl. 01:38

4 Smámynd: Gísli Gíslason

Jón í sambandi við rétt hinna ófæddu barna, þá langar mig að benda á að á síðasta þingi voru samþykkt lög sem heimiluðu konum að fá gjafsæði og slík börn verða ekki feðruð.  Þ.e. þau fá aldrei að vita hver hinn líffræðilegi faðir er.  Þetta er að mínu viti brot á Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og stríðir gegn grunni barnalaga sem segja skýrt að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína og barn skal feðra þegar eftir fæðingu.  Þetta hlýtur líika að vera brot á stjórnarskránni, þ.e. sum börn hafa minni rétt en önnur til að þekkja báða foreldra sína. Annars fjallaði ég um þetta hér og heitir, hvað með rétt barnanna

Gísli Gíslason, 17.7.2008 kl. 08:37

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér, Þrymur. Og kærar þakkir líka, Gísli, fyrir þetta innlegg þitt; ég er sammála þér um þetta, að viljandi vanfeðrun "gjafa"-sæðis-barna er ekki aðeins [1] "brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og [2] stríðir gegn grunni barnalaga sem segja skýrt að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína," eins og þú tekur fram og ég hef gert í fyrri skrifum, heldur er þetta líka [3] brot gegn reglunni að "barn sk[uli] feðra þegar eftir fæðingu," eins og þú bendir svo glögglega á og eins á hitt, sem sömuleiðis vegur hér þungt, að þetta er [4] brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, "þ.e. [að] sum börn hafa minni rétt en önnur til að þekkja báða foreldra sína," eins og þú segir. Þetta eru mjög þakkarverðar ábendingar um brotalöm í tæknifrjóvgunarlögunum – og ekki aðeins tæknilega brotalöm, heldur ómengað, óþarft og miskunnarlaust mannréttindabrot gegn sumum börnum, þeim sem eiga eftir að líða fyrir að fá ekki að vita það, sem allir þrá að vita (ekki seinna en þegar þeir átta sig á því, að þeir áttu einhvern föður): þ.e. lönguninni djúpstæðu að fá að þekkja til faðernis síns. Ótrúlegt, að leiðitamir alþingismenn skuli búa til svona gallaða löggjöf á 21. öld! En með skýrri og málefnalegri gagnrýni á lögin um tæknifrjóvgun eins og þessari frá þér fæ ég ekki betur séð en þú hafir búið þolendunum í hendur afar sterk lagaleg rök til að hnekkja þessu ákvæði laganna um nafnleynd föður. Verst, að þessi börn þurfa öll að bíða svo lengi eftir því, að það fyrsta þeirra höfði málið!

Jón Valur Jensson, 17.7.2008 kl. 11:37

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Margt mjög gott er í greininni þinni, sem þú bentir á, Gísli, og í innleggjum þar, t.d. frá Guðmundi Pálssyni lækni og þessu frá þér: "Langar að benda á þessa rannsókn en þar segir m.a.: "Father engagement seems to have differential effects on desirable outcomes by reducing the frequency of behavioural problems in boys and psychological problems in young women, and enhancing cognitive development."

Þetta er í samræmi við það, sem ég hef kynnt mér í ýmsum heimildum. 

Jón Valur Jensson, 17.7.2008 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband