Hressilegt er viðtalið við Kjartan Gunnarsson

sem Þóra Kristín Moggasjónvarpsstjarna tók

– Það er fengur að því að þessi greindi maður tali út; hann átti t.d. mjög snarpa og efnisgóða tölu um Evrópubandalagsmál í einni endurnýjunarnefnd Sjálfstæðisflokksins, þar sem ég sat á fundi.

Og hreinskiptinn virðist Kjartan í þessu viðtali, sem nýtur skarprar hugsunar hans, t.d. um þá reginfirru, að Samfylkingin og Evrópubandalagssinnar hafi verið sigurvegarar kosninganna – "það, að þetta sé krafa um Evrópusambandsaðild, er mikill misskilningur." Hann segir það vera fráleitustu skýringuna á kosningunum og bendir á, að á sama tíma og Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndi flokkurinn missi samtals 13 þingsæti frá kosningunum 2007, þá vinni Samfylkingin einungis tvö ný þingsæti, auk þess að ná ekki 31% fylginu frá 2003. "Það er alveg áreiðanlegt, að það er í huga Samfylkingarmanna mikill ósigur. Og það er enginn sigur að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn, þegar hann höktir um í hlaupinu fótbrotinn á báðum fótum," segir hann á sínu kjarnmikla máli. 

Hann telur nú stefna í mikil átök milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og að báðir flokkarnir hafi verið mjög óánægðir með úrslit kosninganna. Hvað VG snertir, hygg ég að hann vísi þar til þeirra slæmu áhrifa, sem Kolbrún Halldórsdóttir hafði á fylgi flokks síns með frumhlaups-yfirlýsingu sinni um olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Í viðtalinu segir Kjartan: "Sá flokkur, sem vann nú stærstan sigurinn [Vinstri græn], er nú sá flokkur, sem er einbeittastur andstæðingur Evrópusambands-aðildar." – Með þessu er Kjartan raunar að segja, að Vinstri græn standi eindregnar en Sjálfstæðisflokkurinn gegn EBé-innlimun, og má það hreinskilna álit hans teljast tíðindi.

Annað mál er hitt, hvort allt standist nákvæmlega hjá Kjartani. Þó fæ ég ekki neitað því, að hann talar um það, sem hann þekkir til, þegar hann segir: "Nú, síðan hjálpaði það náttúrlega ekki til, þegar hópur manna, sumir jafnvel sem hafa gegnt æðstu trúnaðarstörfum í Sjálfstæðisflokknum, tóku sig til, þegar landsfundi flokksins var lokið, og ákváðu, vegna þess að þeir höfðu orðið undir í atkvæðagreiðslu á landsfundinum, þegar landsfundurinn hafnar auðvitað aðild að Evrópusambandinu, og hófu einhvers konar sérstaka baráttu fyrir því, að flokksmenn Sjálfstæðisflokksins kysu aðra flokka heldur en Sjálfstæðisflokkinn vegna Evrópusambandsins. Ég held að þetta hafi haft líka einhver áhrif" (segir hann), þ.e. til að skaða flokkinn í kosningunum.

Þessu neita ég ekki og horfi hér m.a. til Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns flokksins og forsætisráðherra, núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, sem var einn þeirra, sem ýttu af stað hreyfingu "sammála" manna, strax um 20. marz, til baráttu fyrir "Evrópusambandsaðild", og munu hafa gengið jafnlangt og Kjartan greinir frá, sem er vitaskuld fréttnæmt.

En Kjartan minnist ekki á tvennt annað:

  1. að ýmsum sjálfstæðismönnum þótti stefnan frá landsfundi (það atriði að gefast upp fyrir kröfunni um að fara í aðildarviðræður, þótt aðrir yrðu þá reyndar að hafa frumkvæði að því) sem og ummæli nýkjörins formanns, einkum þó í vetur, ekki nógu afgerandi skýr til þess, að treysta mætti því, að flokkurinn myndi standa einarðlega með fullveldinu, þegar á reyndi; og
  2. að sumir leituðu jafnvel til Sjálfstæðisflokksins, þegar þeim virtist hann vera sá eini eða annar tveggja á hægri- og miðju-væng, sem stæði með fullveldinu, eftir að L-listinn var farinn, en meðal þeirra manna var Guðmundur Jónas Kristjánsson, minn ágæti bloggvinur, fyrrverandi Framsóknarmaður, sem skrifaði þessa áskorun á fullveldissinna að kjósa Frjálslynda eða Sjálfstæðisflokk.

Vinstrimenn óttast Kjartan, af því að hann er sterkur karakter og málsvari, og ekki skefur hann utan af því, þegar hann talar um, að Samfylkingin hafi brugðizt, "gafst upp fyrir skrílslátunum á Austurvelli." En nú er hann raunar sjálfur í erfiðri aðstöðu eftir þau "dapurlegu tíðindi, sem dundu yfir hér í kringum um páskana um þessi styrkjamál svokölluðu" (KG), sem hann segir örugglega hafa "orðið til þess að skaða Sjálfstæðisflokkinn mjög mikið." Höfum þó í huga, að sjálfur segist hann annars staðar ekkert hafa vitað af ofurstyrkjunum miklu í lok ársins 2006 (sjá Fréttablaðið, smáfrétt í vikunni fyrir kosningar), sem mér finnst raunar ekki trúverðugt.

Það kemur fram í lok viðtalsins, að vitaskuld er Kjartan mikill Davíðsmaður. En endilega skoðið viðtalið sjálft (tengill hér neðar), það er upplifun að hlusta á það.


mbl.is Fótbrotinn Sjálfstæðisflokkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Óháð þessu viðtali þá skaðaðist trúverðugleiki Kjartans mest af því að hafa setið í bankaráði Landsbankans, í ljósi hrunsins, eftir á að hyggja.

Þorgeir Ragnarsson, 28.4.2009 kl. 08:42

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég skil ekki, til hvaða "yfirlýstra hryðjuverkasamtaka" þú telur þið vera að vísa, Sigurður, og þarftu ekki aðeins að hemja þig? Ekki er ég að uppnefna fólkið á Austurvelli skríl, en hitt duldist mér ekki, að viss skrílslæti áttu sér stað í kringum sumar mótmælaaðgerðirnar, m.a. flestar rúður á framhlið Alþingishússins brotnar og veggirnir ataðir eggjum, skyri, jógúrt o.s.frv. Kallast það góðir mannasiðir á þínu máli?

Jón Valur Jensson, 28.4.2009 kl. 22:40

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

... þú tekur ÞIG vera að vísa ... vildi ég sagt hafa

Jón Valur Jensson, 28.4.2009 kl. 22:41

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú veizt nú minnst lítið um það, hvað Kjartan kallar annað fólk.

En skil ég þig rétt, að þú takir undir með hryðjuverkaásökun Gordons Brown og Darlings? – sem vel að merkja eru nú ekki vinsælustu menn á Íslandi vegna þeirra ummæla sinna og tengdra fólskuverka.

Jón Valur Jensson, 28.4.2009 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband