Þriðjudagur, 26. desember 2006
"Guð blessi þig!" - & fjölmiðlaframmistaða á jólum
Af trúum fagnaðarboðskap vitnisbera hins sanna jólaanda -- og ótrúum fréttaburði á okkar slóðum
Jólin eru sannarlega gengin í garð, fjölskyldutími og helgihalds og messusókn mikil, fjölmiðlar vanda efni sitt eftir föngum, boðið er upp á glæsidagskrá í tónum og tali -- stórmyndir eins og hin ógleymanlega franska fuglamynd, stórskemmtilegt, dramatískt söngverk, Vofan í óperunni eftir Andrew Lloyd Webber, o.fl. gæðaverk eiga skyndilega greiðan aðgang á skjáinn á Sjónvarpinu, jafnvel svo, að við komumst ekki yfir að sjá þetta allt -- sumt fer því fyrir ofan garð og neðan vegna heimboða og undirbúnings hátíðahalda.
Það fór þó ekki hjá því, að ég fylgdist með útvarpinu, einkum BBC á aðfangadag, þar voru góðir dagskrárliðir, m.a. farið yfir kræsilegt efni úr útvarpsviðtölum á árinu. Einnig hlustaði ég þar á fréttir. Með samanburði á BBC og RÚV kom í ljós, hvernig hvor stöðin bætti upp hina. Annars vegar varð ég í enn eitt skipti vitni að því, sem glöggir menn myndu trúlega kalla stórfellda misnotkun á þeim ríkisfjölmiðli okkar, þá sem oftar í þágu skekktrar eða blekkjandi myndar sem okkur sé gefin af atburðum í Landinu helga, og bætist það klúður ofan á annað sem aðrir Moggabloggarar hafa verið að skrifa hér um síðan í gær. Hins vegar átti góður umsjónarmaður hádegisfrétta Rúv í gær öllu betra innslag, þegar hann sagði frá jólapredikun páfa. Kem ég að hvoru tveggja betur hér á eftir.
Vissulega hefur RÚV fram að bjóða góða hluti á hverjum jólum. Eftir hádegi á jóladag var t.d. vegleg dagskrá um Gunnar Gunnarsson á Rás 1, þar sem margt merkilegt kom fram; verður sá þáttur vonandi endurtekinn. Þegar ég hóf að slá inn þennan pistil, hafði ég í gangi þátt með séra Þórhalli Heimissyni um Vatíkanið og Rómaborg, með mörgum fallegum söngvum inn á milli [1]. Hápunktur minnar hlustunar eins og margra er þó eflaust viðtalsþátturinn með herra Sigurbirni Einarssyni, sá sem fluttur var í Sjónvarpinu í gærkvöldi (og ég varð að taka upp til að sjá hann í dag). Sá kirkjuhöfðingi á hvað óskiptasta virðingu allra landsmanna, enda höfum við margt af honum þegið og lært á hans löngu og farsælu starfsævi.
Vísvitandi hlutdrægni í fréttavali frá Landinu helga?
Aftur að fréttum af alþjóðavettvangi. Menn hafa verið að skrifa hér á Moggabloggi um einkennilega öfugsnúnar fréttir í Rúv frá Betlehem og almennt um stöðu mála í Ísrael og Palestínu. Enginn hefur þó vakið athygli á dularfullri þögn Rúvsins um það sem var ein aðalfréttin hjá Heimsþjónustu BBC á jólanótt frá Landinu helga og hlaut þar mest áberandi sess meðal annarra frétta þaðan. En í þessari var frá því sagt, að æðsti yfirmaður rómversk-kaþólsku kirkjunnar (Latin church) í Landinu helga, Michel Sabah erkibiskup í Jerúsalem, hefði sárbænt vopnaðar fylkingar Palestínumanna um að stöðva átök sín á milli. Þetta gerði hann í miðnæturmessu í Fæðingarkirkjunni í Betlehem. Sabah er fyrsti Palestínumaðurinn til að þjóna þessu erkibiskupsembætti, og því fer fjarri, að hann hafi verið gagnrýninn á Palestínu-Araba hingað til, þvert á móti hefur hann gengið svo langt í stuðningi við þá, að hann hefur jafnvel virzt afsaka sjálfsmorðssprengjumenn, sem ráðizt hafa á Ísraelsmenn, og á að baki beina samvinnu, ef ekki þjónkun við Jasser Arafat. Nú hvatti hann þær fylkingar Palestínumanna, sem berjast sín á milli, til að leggja niður vopn og kvað átök þeirra fela í sér nýja viðbótarhættu, "leiða til fleiri dauðsfalla, meiri ringulreiðar og nýs þrældómsoks sem við leggjum á sjálfa okkur," eins og hann sagði í predikun sinni. Þetta er harla ólíkt tóninum í Þorvaldi Friðrikssyni, fréttamanni Rúv, kringum þessi jól sem endranær, þar sem ævinlega er verið að skella allri sök á óförum Palestínu-Araba á Ísraelsmenn og harðstjórn af þeirra hálfu.
Já, hvernig var þessari frétt svo tekið hér heima? Fréttastofa Rúv hefur oft borið fyrir sig, þegar hún hefur verið gagnrýnd, að þannig séu t.d. fréttirnar í BBC eða danska útvarpinu. Birti hún þá þessa frétt, eins og BBC gerði? Því fór víðs fjarri! Það var kyrfilega þagað um þessi ummæli erkibiskupsins, og er hann þó enginn vinur Ísraelsríkis. Þetta hefur einfaldlega ekki þótt henta í þá samsuðu sem Þorvaldur Friðriksson leggur á borð fyrir okkur Íslendinga um þessi jól. Þó sá hann um fréttaauka daginn eftir (í hádegisfréttum á jóladag), þar sem hann gat einmitt um þessa jólanæturmessu í Fæðingarkirkjunni og (réttilega) að Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hafi sótt þá messu. Hann fjallaði ennfremur um ástandið í Betlehem, en kom hvergi inn á þá predikun, sem þar var flutt á jólanótt og svo áberandi fréttaefni hafði orðið í heimsútvarpi BBC! Sem fyrri daginn útblæs Þorvaldur ofríki Ísraelsmanna, á sama tíma og hann þegir um heiftarleg bræðravíg meðal Palestínumanna sjálfra, og liggur þó í loftinu, að borgarastyrjöld geti hlotizt af, ef ekki tekst að stöðva þau hjaðningavíg. Um gagnrýni hæst setta kaþólikkans í Landinu helga varðar Þorvald ekkert, ef hún fellur í þá átt, sem honum og málvini hans Sveini Rúnari Haukssyni er ekki að skapi. Þessi vinnubrögð Þorvaldar koma mér ekki á óvart, eftir að ég hef fylgzt með þessum sérlunduðu háttum hans á Fréttastofunni í hátt á annan áratug -- því hátterni sem ýmsir aðrir eru að taka eftir þessa dagana.[2] En ég undrast hina endalausu þolinmæði sem yfirmenn Fréttastofunnar og Ríkisútvarpsins hafa sýnt og sýna enn þessum starfsmanni sínum. Aldrei mundi þetta líðast nema í mesta lagi nokkrar vikur í öðrum siðmenntuðum löndum Evrópu.
Páfinn enn sem fyrr óhræddur að minna á hlutskipti hinna ófæddu
Við heyrðum í hádegisútvarpi í gær sagt frá predikun páfa á jólanótt, sem hann tileinkaði börnunum, einkum fátækum og þjáðum, fæddum sem ófæddum, eins og hinn ágæti fréttamaður Broddi Broddason, umsjónarmaður þessara frétta, sagði frá í stuttu ágripi sínu kl. 12.22 25/12:
Páfi biður fólk að hugsa vel um börnin -- Tugir þúsunda hlýddu á Benedikt sextánda páfa syngja jólamessu í Péturskirkjunni í Róm á miðnætti, messunni var sjónvarpað til milljóna manna víða um heim. Páfi hvatti þjóðir heims til þess beina sjónum sínum að fátækum börnum og fæddum og ófæddum börnum sem sæti ofbeldi og þjáist. Þegar fæðingu barnsins frá Betlehem sé fagnað þá minnist menn þeirra barna sem þurfi að betla, sem líði hungur, barna sem neydd séu til hermennsku og barna sem ekki séu elskuð.
Þessu fagna ég, þ.e. að ekki sé þagað um þennan þátt í boðun páfa, málsvörn fyrir hina ófæddu, jafnvel þótt heimsþjónusta BBC hafi gert það í sínum fréttum [3] og þrátt fyrir augljósa hneigð vinstri- og "frjálslyndis"aflanna á Íslandi til sömu viljandi vanrækslu. Hér fær því Rúv rós í hnappagatið frá mér eða réttara sagt Broddi Broddason, því að fréttirnar á þeim bæ virðast mjög gjarnan vera komnar undir hlutlægni eða hlutdrægni einstakra fréttamanna.
Í framhaldi af þessu er vert að geta þess, að þann 28. desember er "messudagur hinna heilögu sakleysingja" -- sveinbarnanna sem Heródes konungur lét taka af lífi vegna fregna sem honum höfðu borizt til eyrna af hinum nýfædda konungi Gyðinga. Allt frá árdögum kirkjunnar hefur minning þeirra verið heiðruð í helgihaldinu, af því að þeir voru álitnir deyja píslarvottadauða vegna Krists; sá messudagur hefur a.m.k. frá tíma Leós páfa mikla (d. 461) verið á þessum degi. Tveimur dögum síðar, 30. desember, verður dagur hinnar heilögu fjölskyldu, sem raunar er nýlegur messudagur í kaþólsku kirkjunni. Á þessum þremur messudögum, frá jólum til 30. des., er verið að minnast okkar minnstu bræðra og systra, barnanna sem Jesús bauð lærisveinum sínum að varna þess eigi að koma til sín. Rómversk-kaþólska kirkjan -- eins og raunar hin orþódoxa líka -- hefur trúfastlega minnzt ekki einungis fæddra barna í fyrirbænum sínum, heldur og hinna ófæddu, sem á síðustu áratugum hafa verið leiksoppur óguðlegrar veraldarhyggju sem koma vill þeim fyrir kattarnef -- og gerir það í raun og verki: 48 milljónir ófæddra sem enda líf sitt í fósturdeyðingu á hverju ári. Verður himnaríki kannski fullt af fórnarlömbum synda okkar? Verða þeir ófæddu, sem þó bjuggu yfir ódauðlegri sál, kannski í meiri hluta meðal hinna frelsuðu? Hneykslizt ekki á þessari spurningu, heldur minnizt orða Jesú: "Gangið inn um þrönga hliðið, því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann" [4]. Tökum mark á orðum hans, alveg eins og hann tekur mark á okkar eigin orðum [5] -- þó ekki þeim, sem í raun voru glysmælgi ein án innihalds! [6]
Það, sem mest snart mig þó mest við hlustun á fréttir um þessi jól, var einlægt ákall Desmonds Tutu, erkibiskups anglíkana í Suður-Afríku, fyrir frelsun búrmönsku baráttukonunnar Aung San Suu Kyi, flutt í fáeinum kröftugum orðum hans á jólanótt í BBC World Service. Ég vildi ég gæti miðlað þeim hér til ykkar! En í grófasta ágripi ræddi hann þar m.a., að einræðisstjórn herforingjanna í Burma muni aldrei sigrast á hugrekki hennar og hugsjón fyrir þjóð sína, þótt þeir haldi henni árum saman í stofufangelsi. Hún eigi eftir að verða forseti landsins og innleiða þar á ný lýðræðislega stjórnarhætti. Og hann endaði skilaboð sín á jólum með þessum tilfinningaþrungnu orðum til hennar: "Guð blessi þig. Guð blessi þig. Guð blessi þig!"
Þetta fannst mér falleg jólakveðja og mun sitja í hug mínum lengur en margar aðrar.
-------------------------------------oOo-------------------------------------[1] "Undir yfirborði Vatíkansins." Þátturinn verður endurtekinn á laugardag.
[2] Sjá pistla Gests Halldórssonar, Eru komnir nýir fréttaritarar hjá RÚV, Hjartar J. Guðmundssonar: Fréttaritari Ríkisútvarpsins í Betlehem, Sveinn Rúnar Hauksson, og Snorra G. Bergssonar: Alltaf sami áróðurinn í RUV.
[3] Þess ber þó að geta að verðleikum, að í þeim yfirlitsþætti BBC á aðfangadag, sem ég gat um hér í byrjun þessa pistils, með útdráttum úr góðum viðtölum, var einmitt eitt slíkt viðtal við eindreginn fósturverndarsinna, sem þar fekk að rökstyðja viðhorf sitt ágætavel og það undir allerfiðri spurninghríð þáttagerðarkonunnar; hún gaf honum að lyktum verðugt hrós fyrir hans sterku og áhrifaríku sannfæringu.
[4] Mt. 4.13-14. Sbr. einnig Lúk. 13:22-30: Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi. Einhver sagði við hann: "Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?" Hann sagði við þá: "Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta. Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: Herra, ljúk þú upp fyrir oss! mun hann svara yður: Ég veit ekki, hvaðan þér eruð. Þá munuð þér segja: Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum. Og hann mun svara: Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn! Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna. Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki. En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir."
[5] Sjá þessi orð Jesú í Mt.12.36: "En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi, því að af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða."
[6] Sbr. orð Jesú í Mt.7.21: "Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum."
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Alþjóðamál, Bloggar, Dægurmál, Lífsverndarmál, Siðferðismál, Sjónvarp, Trúmál og siðferði, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Breytt 31.12.2006 kl. 13:11 | Facebook
Athugasemdir
Vill bara segja KVITT fyrir lesturinn
Gunnar Helgi Eysteinsson, 28.12.2006 kl. 17:01
Í frétt Morgunblaðsins á jóladag (http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1243600) var sagt frá þerssari jólanæturmessu erkibiskupsins með eftirfarandi hætti:
Mahmud Abbas ræðir við Michel Sabbah í miðnæturmessu í kaþólsku kapellunni í Fæðingarkirkjunni í Betlehem (Reuters, Erlent | AFP | 25.12.2006 | 10:22)
Fordæmdi innbyrðis átök Palestínumanna
Michel Sabbah, patríarki kaþólsku kirkjunnar í Jerúsalem, fordæmdi innbyrðis átök Palestínumanna þegar hann flutti prédikun í miðnæturmessu í Betlehem á Vesturbakkanum í nótt. Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, var viðstaddur athöfnina.
„Nú þegar jólin eru hringd inn eru erfiðleikarnir miklir og það er aukið á þá með innbyrðis deilum," sagði Sabbah. „Þessi bræðraátök leiða til fleiri dauðsfalla og nýs oks, sem við leggjum á okkur sjálf."
Sabbah er fyrsti Palestínumaðurinn sem gegnir embætti patríarka rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Jerúsalem.
Sabbah sagði við Abbas: „Þú ert velkominn ásamt öllum þínum félögum." Hann hvatti síðan alla stjórnmálaleiðtoga á svæðinu til að læra að verða friðflytjendur en ekki stríðsherrar, veita líf en ekki dauða og átökin í Miðausturlöndum hefðu staðið of lengi yfir. „Það er löngu tímabært að leiðtogar okkar bindi enda á þetta langa tímabil dauðans í sögu okkar."
Um þessa frétt bloggaði Snorri Bergz pistil undir heitinu Úlfur í sauðargæru. Ég mun bæta hér við aths. um það, því að tíminn er útrunninn á athugasemdir við þá grein hans.
Jón Valur Jensson, 30.12.2006 kl. 16:21
48 milljörðum fósturvísa eytt, segirðu? Það þýðir, hvað, 16 fóstureyðingar á ári fyrir hverja einustu konu í heiminum? Þ.e.a.s. ef maður reiknar með því að það séu 3 milljarðar kvenna og þetta séu eintómir einburar. Það eru að sönnu svimandi tölur, hærri en ég ímyndaði mér.
Vésteinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 31.12.2006 kl. 10:35
Þakka þér fyrir ábendinguna, Vésteinn, þetta var vitaskuld klaufska hjá mér, enda mannkynið ekki nema um 6 milljarðar! Ég leiðrétti þetta hér með og þakka þér fyrir þessa þátttöku þína í bloggi mínu.
Jón Valur Jensson, 31.12.2006 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.