Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019
Föstudagur, 13. desember 2019
Íhaldsflokkurinn vann tryggan meirihluta í neðri deild brezka þingsins. Bretland gengur brátt úr Evrópusambandinu, loksins öruggt!
Tilkynnt var á BBC kl. 5.06 í nótt að Íhaldsflokkurinn væri kominn með hinn nauðsynlega meirihluta þar, og samt á hann enn eftir að fá góðan hluta þingsætanna úr 51 kjördæmi, þar sem enn á eftir að tilkynna úrslitin. Þetta er mesti kosningasigur Íhaldsflokksins í 32 ár, frá 1987! En þetta yrði mesti ósigur Verkamannaflokksins síðan 1935, þegar Clement Attlee leiddi flokkinn og fekk 154 þingsæti.
Fréttamenn BBC jafnt sem stjórnmálamenn, sem þar komu í viðtöl, eru sammála um, að Bretland gengur úr Evrópusambandinu fljótlega, að þessum úrslitum fengnum.
PS. Kl. 6.07 er að sjá, að meirihluti Íhaldsflokksins verði 78 til 80 þingsæti. Þau verði um 365, en Verkam.flokksins um 203 og Skozka þjóðarflokksins 50. Sá flokkur er nú kominn með minnst 46 örugg sæti og hefur þá unnið 13, en Íhaldsflokkurinn fekk 6 þingsæti í Skotlandi, tapaði 7 (ekki endanlegar tölur þó). En frábær er árangur SNP að fá 50 af 59 þingsætum sem Skotar eiga í brezka þinginu.
Verulegri umbreytingu er nú einnig spáð á Íhaldsflokknum, hann verði síður með aðaláherzlu á höfuðborgarsvæðið og Suður-England, hann hafi unnið svo mörg þingsæti meðal verkamannabyggða í Norður-Englandi (einnig í Wales) og muni sinna öllu landinu, eins og Boris hefur heitið, en hann er einnig líklegur til að nálgast Bandaríkin meira en ýmsum fylgjendum Verkamannaflokksins er sýnt um!
Sjá nánar ýtarlegri grein mína (ritaða í nótt, yfir talningu atkvæða og umræðum á BBC) á Fullveldisvaktinni:
Stórsigur Íhaldsflokksins blasir við í brezku þingkosningunum; Skozki þjóðarflokkurinn stendur sig afar vel, en HRUN í fylgi Verkamannaflokksins
Bretland (UK) | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. desember 2019
Eilífðarvél Katrínar
Frú Blabla heldur að hún hafi fundið upp eilífðarvél, þ.e. til að halda völdum. Hún er fólgin í því að blaðra bara sem mest og hraðast.
Það gerir hún vitaskuld öðru fremur í sinni dýrkeyptu loftslags-hjátrú. Og galin á sviði meintrar umhverfisverndar tekur hún auðvitað undir ESB-þæga "hvalafriðunarstefnu" Þorgerðar Katrínar, okkur Íslendingum til bölvunar, en þeim Katrínunum báðum til billegs priks fyrir auglýsingamennsku og alkunna montstæla til útflutnings, sem þó skilar engu í vasa þjóðarinnar.
![]() |
Kvartaði undan útúrsnúningum forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. desember 2019
Galið veður! GALE, segja Englendingar!
Veðurhæðin kemst allt að 30 m/sek. við Seltjarnarnes í kvöld, og undir Vatnajökli má búast við grjótflugi, syðst í jöklinum spáð 40 m/sek. í fyrramálið. Varla neitt ferðaveður á Kjalarnesi í kvöld og undir Eyjafjöllum!
![]() |
Hættustigi almannavarna lýst yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál, náttúra | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 10. desember 2019
Allt er nú orðið að frétt
Allt er nú orðið að frétt, ef það snertir konur, jafnvel einhvers staðar úti í heimi, og það í þessu brjálaða veðri hér á Íslandi! Það er sama hvernig myndbandið er skoðað, mjög erfitt er að sjá eitthvert hneyksli eiga sér stað, hvað þá glæp, en tveir, jafnvel þrír taka þátt í að stríða henni. Ofurviðkvæmni myndi ég kalla þetta, og til hvers var hún að stilla sér upp þarna blessunin? En varla er hún að kvarta yfir því að hafa meiðzt, og langsótt væri að halda því fram, að þessir karlmenn hafi ætlað sér að komast eittvað áfram með hana! En heimsfrétt er þetta ekki nema í hugum ofurviðkvæmra.
![]() |
Rassskellt í beinni útsendingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. desember 2019
Rétt og uppbyggjandi afstaða Angelu Merkel: Það er eðlilegur hluti af þýzku þjóðareinkenni að minnast glæpa nazista
Enginn afsláttur með það. Við heimsókn hennar í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz-Birkenau í Póllandi lýsti hún djúpri skömm Þjóðverja vegna þess sem gerðist þar, en um ein milljón Gyðinga var drepin þar svívirðilega af nazistum á árunum 1940 til 1945, fyrir utan aðra hryllingsstaði, þar sem það þjóðarmorð fór fram.
Það eru engin orð sem geta lýst sorg okkar, sagði hún.
Þeim hægriflokki, sem nú er mjög í uppgangi í landi hennar, Alternativ für Deutschland, AfD, er það sízt til frægðar að
"halda því fram að ekki eigi að afsaka eins mikið og gert er fortíð Þýzkalands í tengslum við nazismann, heldur eigi frekar að fagna öðrum atburðum í sögu þjóðarinnar." (Mbl.is)
Þetta er ónytjutal og gerir lítið úr höfuðglæpum stjórnvalda í Þýzkalandi fyrir um 75-85 árum. Þeir eiga ekki að falla í gleymsku!
![]() |
Hluti af þjóðareinkenni að minnast glæpa nasista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Öfgastefnur og hryðjuverk | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. desember 2019
Er Þjóðkirkjan að breytast í Eikirkju? Minnkandi traust fækkar þar meðlimum
"Eikirkjan" virðist koma til greina sem nýtt nafn á Þjóðkirkjuna; það má tengja frétt dagsins um að þar hafi fækkað um ríflega 1500 manns á einu ári. Ekki er hún þó að verða að engu, er enn með 63,5% landsmanna, en engir hefðu búizt við því fyrir aldarfjórðungi, að svo mjög myndi hún skreppa saman. Til samanburðar voru 93,23% landsmanna í Þjóðkirkjunni árið 1982 og samanlagt 98,27% þá í átta kristnum trúfélögum. Nær 30% landsmanna hafa því hrakizt úr eða sagt skilið við Þjóðkirkjuna á 37 árum.
En hugtakið "Eikirkjan" gæti farið að eiga við þá kirkju, sem hættir að sinna hlutverki sínu í hreinni boðun fagnaðarerindisins og siðakenningar Krists og postula hans. Getur það verið, að ýmis element Þjóðkirkjunnar stefni þangað með flaggskip íslenzkra trúfélaga? Eitt er víst, að mörgum þar hefur mislíkað við, að prestar hafa leyft sér ýmsa nýbreytni, sem þeim leyfist ekki samkvæmt Nýja testamentinu, og að jafnvel æðsti biskup þeirrar kirkju hefur talað þvert gegn samþykktum kirkjuþings og prestastefnu um málefni ófæddra barna og þá sömuleiðis gegn allri höfnun kristindómsins á fóstureyðingum allt frá upphafi.
Aldrei var það vilji Jesú Krists og Skaparans, að samkynja fólk mætti ganga í hjónaband. En þetta gerðist þó í þessari Þjóðkirkju, undir afar miklum þrýstingi róttækra afla innan hennar og utan, og í því ferli var þess svo vandlega gætt að svíkja almenna leikmenn um að bera málið fyrst (eins og lofað hafði verið) undir safnaðar- og leikmannafélög. Samt er þetta hátterni í berri mótsögn við orð Heilagrar Ritningar. Þau róttæku töldu sig vinna í þágu framfara og réttlætis, þetta gæti jafnvel orðið öðrum kirkjum til fyrirmyndar, en það ætlar að verða afar löng bið á því, að nokkur af hinum stærri kirkjusamfélögum heims troði sömu villugötuna.
En hinn sama Agnes, sem fyrir biskupskjör sitt lýsti yfir, að EKKI ætti að þvinga presta til þess að framkvæma hjónavígslur samkynhneigðra og að það ÆTTI að virða samviskufrelsi þeirra, hún gekk svo á bak þeirra orða sinna, þegar hún sem biskup lúffaði fyrir þrýstingi fylgismanna samkynhneigðra og vildi í framhaldinu banna prestum að "mismuna" vegna kynhneigðar (sbr. og hér). Þessi andlútherska stefna varð svo ofan á á Kirkjuþingi fyrir fjórum árum.
Vegna kenningar-linkindar og villukenninga, sem átt hafa upp á pallborðið í nefndri Þjóðkirkju á seinni árum, heyrir maður af mörgum tilfellum um úrsögn úr henni og þá gjarnan innskráningu í önnur, kenningartrúrri kirkjufélög í staðinn. Mun þetta vera meðal ástæðna fækkunar í meðlimatölu Þjóðkirkjunnar á þessari öld.
En kristin kirkja þarf að vera sönn og trú kenningu Krists, en afar sorglegt, ef hún fer að breytast í einhvers konar "eikirkju" og býr svo við hnignandi traust og fráfall meðlimanna í framhaldi af því.
![]() |
Skráðum í Þjóðkirkjunni fækkar um ríflega 1.500 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt 5.12.2019 kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. desember 2019
Kata Jak á mynd með Trump, Elísabetu drottningu, Boris Johnson, Karli prinzi og Angelu uppgefnu Merkel
Það er aldeilis hersingin, um 30 manns, forsætisráðherrar og aðrir leiðtogar NATO-ríkja ásamt fulltrúum brezku hirðarinnar. Komast þó sennilega fáir jafnlangt og Kata í andstöðu við lífsrétt ófæddra barna, og hafi hún skömm fyrir. S.k. herstöðvaandstæðingar í flokki hennar eru trúlega æfir yfir því, að hún láti mynda sig með leiðtogum NATO, og verði henni að góðu að vekja þeirra sundrungaranda í þessum gervilega flokki sínum, afturgöngunni síðustu af Kommúnistaflokki Íslands, deild í Alþjóðasambandi kommúnista, sem var undir stjórn Stalíns.
![]() |
Katrín í kvöldverðarboði drottningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. desember 2019
Væri ekki Ólafur Helgi Kjartansson hæfastur til að taka við starfi ríkislögreglustjóra?
Hart var þjarmað að Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra, sem ekkert hefur þó brotið af sér, en lætur nú undan þrýstingi, m.a. pólitískum.
Væri ekki Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustóri á Suðurnesjum og áður á Selfossi og Ísafirði, tilvalinn í starf ríkislögreglustjóra? Hann þekkir öll mál út og inn og hefur a.m.k. bein í nefinu; það á engin gunga að taka við af Haraldi.
![]() |
Ríkislögreglustjóri hættir um áramót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 2. desember 2019
Siðlaus harðstjórn og úrræði gegn henni (3. og síðasti hluti greinaflokksins Namibía undir járnhæl kynþáttakúgunar)
Skipulagðar pyntingar
Heimildum ber saman um, að pyntingar séu stundaðar kerfisbundið í Namibíu. Þær eru allt að því orðin regla í yfirheyrslum öryggislögreglunnar yfir pólitískum varðhaldsföngum, bæði til að knýja fram játningar" og fá upplýsingar um stjórnmálastarfsemi þeirra.
Suður-afríski herinn í Norður-Namibíu er einnig sagður beita pyntingum óspart í því skyni að afla upplýsinga um skæruliða og hræða íbúana frá þvf að veita þeim liðsinni. Í ágúst 1976 staðhæfði suður-afrískur hermaður, að herdeild hans ein saman bæri ábyrgð á kerfisbundnum pyntingum nál. 200 afrískra borgara, sem voru hnepptir í varðhald í einni öryggisaðgerð í Ovambolandi [N-Namibíu] í júní 1976.
Margir pólitískir fangar hafa gert opinskátt, að þeir hafi verið pyntaðir í yfirheyrslum. Þannig er t.a.m. sagt, að 37 sakborningar hafi orðið fyrir líkamsárásum og pyntingum með rafmagnslosti, meðan þeir voru í haldi hjá öryggislögreglunni í Pretoríu. Í apríl 1973 skýrðu lútherskir kirkjuleiðtogar í Namibíu forsætisráðherra S-Afríku ýtarlega frá málum 37 Afríkumanna, sem voru pyntaðir í Ovambolandi 1972.
Margs konar pyntingaraðferðum er beitt, t.d. eru menn sviptir svefni dögum saman, barðir með hnefum og stöfum, gefið rafmagnslost og brenndir með sígarettuglóð. Ennfremur hafa menn verið hengdir upp á ökklum og úlnliðum langtímum saman, kaffærðir í vatni unz þeir hafa misst meðvitund, og þeim hefur verið hótað að verða hlekkjaðir eða drepnir.
S-Afríkustjórn hefur ævinlega hafnað öllum tilmælum um óháða rannsókn á staðhæfingum um pyntingar. Hefur hún heldur kosið að halda því fram, að slíkur framburður sé gersamlega tilhæfulaus. Þannig var áðurnefndum kirkjuleiðtogum tilkynnt, að enginn fótur væri fyrir þeim ásökunum, sem þeir höfðu gert heyrinkunnar.
Mörg suðurafrísk lög bjóða upp á misnotkun, t.d. það atriði, að hafa má menn í varðhaldi í algerri einangrun (incommunicado) í ótilgreindan tíma. Skv. tilskipan R.17 er opinberum starfsmönnum S-Afríku heitið sérstökum griðum fyrir öll verk, sem framin eru í góðri trú". Skv. lögum um varnarmál frá 1976 var öllum suðurafrískum hermönnum gefin trygging fyrir því, að ekki yrði höfðað mál gegn þeim fyrir verk, sem framin væru í sambandi við innanlandsróstur eða annað hættuástand".
Ljóst er af þessu, að S-Afríkustjórn reynir ekkert til að koma í veg fyrir villimannlegar pyntingar pólitískra fanga, heldur þvert á móti gerir liðsmönnum sínum auðveldara fyrir með lagasetningu að ofsækja svarta menn og traðka á frumstæðustu mannréttindum þeirra. Sjálf ber stjórnin því ótvírætt beina ábyrgð á því athæfi, sem látið er viðgangast í hinum skuggalegu aðgerðum" hers og lögreglu á yfirráðasvæðum hennar. Fyrir hálfu ári voru nál. 46.000 manns úr öryggissveitum S-Afríku bundnir við friðargæzlu" i norður- og miðhluta Namibíu.
Niðurstöður
Hér hefur í stórum dráttum verið sagt frá ástandi mannréttinda í Namibíu, skv. þeim upplýsingum, sem er að finna i bæklingi Amnesty International. Af þeim er óhætt að draga þá ályktun, að kynþáttastefna S-Afríku hefur það í för með sér að landið getur ekki talizt réttarríki, því að sjálfu dómstólakerfinu er beitt til að halda uppi réttarfarsofsóknum og jafnvel til að fremja dómsmorð. Íslendingar, sem um langan aldur hafa búið við milt réttarfar og mannúðlegan hugsunarhátt, hljóta því að fyllast hneykslun yfir þeirri svívirðu, sem á sér stað í nafni stjórnar, sem þykist verða að útbreiða hvíta siðmenningu" í Afríku. Skiptir þar engu máli samanburður við önnur ríki, þar sem fjöldi pólitískra fanga er miklu meiri (Indónesía, Íran, Sovétríkin, Chile, Kúba) og þar sem pyntingar og manndráp eru enn algengari í dýflissum harðstjóranna (Kambódía, Indónesía, Íran, Chile, Brasilía, svo að dæmi séu nefnd). Það, sem er mergurinn þessa máls og verður ekki falið eða afsakað með neinum samanburði, er sú einfalda staðreynd, að löggjöf, dómstólar, her og lögregla S-Afríkustjórnar eru beinlínis tæki til að þjóna siðlausri harðstjórn, sem misbýður virðingu mannlegs lífs og verðskuldar óskipta fordæmingu. Dómur sögunnar á eftir að verða harður yfir þessari síðustu tilraun hvítra manna til að siða" hinn svarta kynstofn í Afríku.
Eins og fyrr sagði hafa Sameinuðu þjóðirnar tekið að sér að ábyrgjast þjóðréttarstöðu Namibíu og berjast gegn íhlutun S-Afríkustjórnar. Það er skylda hvers einasta aðildarríkis SÞ að gera hvað það getur til að binda enda á þjáningar Namibíumanna. Íslendingar eru þannig að sínu leyti ábyrgir fyrir því, að fyrsta tækifæri verði gripið til að tryggja hinum ofsóttu þjóðfrelsismönnum, sem áður var sagt frá, frelsi sitt aftur.
Eftir ákvörðun SÞ 1966 og úrslit gerðardómsins í Haag 1971 hefur S-Afríka engan rétt til að ráðskast með málefni Namibíuþjóðar. Það er því engin furða þótt SÞ telji sér rétt og skylt að samþykkja refsiaðgerðir gegn S-Afríkustjórn, svo að hún verði neydd til að láta af nýlendustefnu sinni gagnvart þessu landi, sem hún hefur ekki einu sinni lögsögu yfir skv. alþjóðarétti. Reyndar væri ástandið í mannréttindamálum S-Afríku og Namibíu vafalaust enn verra, ef SÞ og sérstaklega þó ríki Afríku hefðu ekki haldið uppi harðri gagnrýni á kynþáttakúgun stjórnvaldanna. En hitt er jafnvíst, að hin óbilgjarna stjórn S-Afríku mun ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana eða a.m.k. ekki fyrr en hún sér, að öllum viðskiptaþjóðum hennar er fullkomin alvara með því að knýja hana til að flytjast brott með her sinn og hafurtask frá Namibíu. Það er þess vegna ekkert annað en stuðningur við stefnu S-Afríkustjórnar, þegar helztu stórveldi hins frjálsa heims brjóta í bága við meginstefnu SÞ með því að hafa við hana viðskiptaleg tengsl. Og enn alvarlegri er sú staðreynd, að vesturveldin hafa hindrað SÞ í frekari aðgerðum með því að beita neitunarvaldi gegn ályktun öryggisráðsins um vopnasölubann á S-Afríku. Með slíku athæfi er verið að lengja lífdaga nýlendustjórnarinnar og ofurselja fjölda blökkumanna í hendur áðurgreindu dómstóla- og refsikerfi í Namibíu.
Hvað er til ráða?
Þau gleðilegu tíðindi hafa nú gerzt í mannréttindamálum, að Bandaríkin eru farin að miða stefnu sína í utanríkismálum að nokkru leyti við siðrænar frumreglur og grundvallargildi eins og virðingu fyrir einstaklingsfrelsi og mannhelgi í stað þess að stjórnast af einberum eiginhagsmunum og diplómatískri samningalipurð við önnur ríki. Þess er vænzt, að stjórn Carters forseta láti sér ekki nægja að gera siðferðislegar kröfur til Sovétríkjanna og leppríkja þeirra, heldur einnig og ekki síður til þeirra ríkisstjórna, sem löngum hafa staðið undir verndarvæng Bandaríkjanna. Því er sem leysing sé nú í vændum í málefnum kúgaðra manna víða um heim, enda hefur frumkvæði Bandaríkjanna orðið til þess, að fleiri vestræn stórveldi hafa hrist af sér slenið og farið að leggja áherzlu á virðingu fyrir mannréttindum í öllum heimshlutum. Aftur á móti er hætt við því, að þessi nýja viðleitni, sem hefur hápólitískar afleiðingar, renni út í sandinn, ef sú almenna hreyfing, sem kom henni af stað, veitir ekki stjórnvöldum stöðugt aðhald og hvatningu til að hvika hvergi frá réttlætiskröfum sínum.
Þetta á í sérstökum mæli við um afstöðuna til kúgunarstjórnar Vorsters í Suður-Afríku. Vandamál Namibíu hefur um árabil verið ákaflega viðkvæmt, en samt hefur vestrænum ríkjum haldizt uppi að standa í verzlunarviðskiptum við hina ólögmætu stjórn. Nú er hins vegar sérstakt tækifæri til að binda enda á þessi ósæmilegu tengsl og einangra S-Afríkustjórn með hafnbanni, unz hún hverfur á brott frá Namibíu. Vestrænum ríkjum mun ekki líðast sú tvöfeldni að styrkja S-Afríku með viðskiptum eftir allar yfirlýsingarnar um stuðning við baráttu kúgaðra manna í Sovétríkjunum. Allsherjarþing SÞ er kjörinn vettvangur til að bera fram tillögur um algjört viðskiptabann á S-Afríku, til þess að hún láti Namibíu lausa, og jafnframt harðar vítur á hvert það ríki, sem brýtur þetta bann.
Íslenzkt frumkvæði yrði áhrifaríkt
Það er líklegt, að gagnrýni á Bandaríkin, Bretland og V-Þýzkaland frá vina- og bandalagsþjóð þeirra í NATO muni vekja miklu meiri athygli í þingsölum SÞ heldur en ein tillagan enn frá einhverri Afríkuþjóðanna. Ísland getur hér orðið e.k. samvizka vestrænna þjóða og tillaga þeirra prófsteinn á það, hvort Bandaríkjastjórn er einhver alvara með nýtilkominni málsvörn sinni fyrir mannréttindi í öllum löndum.
Sá, sem ritar þessa grein, fer ekki dult með það, að tilgangur hennar er sá að hvetja ríkisstjórn Íslands til frumkvæðis um þetta mál. Hæstvirtur forsætisráðherra [Geir Hallgrímsson] sagði réttilega á nýafstöðnu Norðurlandaþingi, að norrænar þjóðir ættu að láta að sér kveða til varnar mannréttindum alls staðar í veröldinni, ekki aðeins i fjarlægum löndum, heldur einnig þar sem þessar þjóðir ættu viðskiptalegum hagsmunum að gæta. Nú er S-Afríka reyndar eitt þessara fjarlægu ríkja, en hér er ekki við hana eina að sakast, heldur og þær ríkisstjórnir, sem enn hafa ekki stöðvað viðskipti milli landa sinna og Namibíu eða S-Afríku. Og við þær þjóðir, sem sagt var í upphafi þessarar greinar, að væru helztu viðskiptaþjóðir Namibíu næst á eftir S-Afríku, hafa Íslendingar megnið af sínum utanríkisviðskiptum. Hér er því kærkomið tilefni til að sýna það I verki, að ríkisstjórn Íslands skortir ekki kjark til að segja meiningu sína um framferði þeirra þjóða, sem ljá nýlendustefnu S-Afríku óbeinan stuðning. Þessi tillaga sendiherra Íslands hjá SÞ um algjört bann á viðskipti við S-Afríku væri frumkvæði, sem eftir yrði tekið og gæti haft hin farsælustu áhrif, vegna þess hve veik staða S-Afríku er nú þegar orðin í Namibíumálinu. Ríkisstjórn Carters er einnig í afar slæmri aðstöðu til að virða slíka tillögugerð að vettugi (ef hún þá kærir sig nokkuð um það) eftir hina réttmætu gagnrýni hennar á mannréttindabrot í öðru kúgunarríki (Sovétríkjunum).
Hér er ekki um neinar draumórakenndar óskir að ræða. Ef svo fer, að hin nýja stjórn Carters í Bandaríkjunum þrýsti á stjórn Vorsters með að Namibía fái sjálfstæði og kosningar verði haldnar á vegum SÞ, breytir það öllum gangi mála, sagði Séan MacBride, þáverandi umboðsmaður SÞ í Namibíu, í viðtali við Mbl. 15. des. sl., er hann kom hingað á vegum Amnesty International. Allt tal um, að áðurnefndar tillögur séu óraunhæfar, væri því út í hött og bæri aðeins vott um takmarkaða umhyggju okkar fyrir mannréttindum nema kannski í vissum löndum.
Sú tíð er nú vonandi að syngja sitt síðasta, að gangur alþjóðastjórnmála fari aðeins eftir hagsmunapólitík ríkja hverju sinni. Ég hef ekki trú á því, að Íslendingar vilji halda í þá gömlu hefð, sem aðrir blygðast sín nú fyrir. Við skulum þvert á móti sýna umheiminum það, að við erum frelsiselskandi þjóð, sem er hvergi hrædd við að taka einhverja áhættu fyrir málstað réttlætis og mannúðar. Aldalöng sjálfstæðisbarátta ætti að hafa kennt okkur samúð meó þeim þjóðum, sem enn eru undirokaðar af nýlenduveldum. Allt sinnuleysi af hálfu Íslendinga um velferð hinnar kúguðu Namibíuþjóðar væri hins vegar í megnasta ósamræmi við yfirlýsta trú okkar á þau verðmæti, sem eru æðri öllum veraldlegum gæðum.
13. apríl 1977
(Já, þá mun ég hafa lokið ritun þessa greinaflokks, en birtingin tafðist um nærfellt 100 daga skeið.)
Upphafl. birt hér: Siðlaus harðstjórn og úrræði gegn henni, Mbl. 11.8. 1977, bls. 24-25 (frh. hér). Heimilda er jafnan getið jafnóðum. Þessari lokagrein fylgdi ein götumynd frá Windhoek, með hvítum karlmanni, einum þeldökkum og þremur konum þeldökkum (sjá hér) ásamt þessum texta: Windhoek, höfuðborg Namibíu, er nútímaleg borg með nútímalegu fólki.
Jafnvel Þjóðviljinn, blað kommúnista, tók býsna vel við þessum greinaflokki mínum, í Þættinum Klippt og skorið 13. ág. 1977, og vitnaði óspart til orða minna, undir fyrirsögnunum Tvöfeldni vestrænna ríkja og Kærkomið tilefni. (Hér var vísað til þeirrar Þjóðviljagreinar á Timarit.is og þar hægt að stækka letrið upp í læsilegt, neðst til hægri.)
Fyrri greinar mínar í þessum greinaflokki, Namibía undir járnhæl kynþáttakúgunar, eru hér:
1. grein: Suður-Afríka heldur áfram nýlendustefnu sinni í trássi við alþjóðalög
og 2. grein: Suður-Afríka hefur þverbrotið grundvallarmannréttindi Namibíumanna
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1489210
![]() |
Mótmælt fyrir utan dómshúsið í Windhoek |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afríka | Breytt 3.12.2019 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 1. desember 2019
Í tilefni fullveldisdagsins: Svavar Benediktsson tónskáld, æviminningar og ýmis lög hans
Svavar Benediktsson, tónskáld, klæðskeri og harmonikkuleikari frá Norðfirði, var einn af kærustu og virtustu vinum foreldra minna, aufúsugestur í öllum stórafmælum þeirra og ömmu minnar Karitasar Halldórsdóttur, sem búsett hafði verið á Neskaupstað 1926-1956 ásamt manni sínum Hinriki Hjaltasyni, vélstjóra og járnsmíðameistara frá Ísafirði (d.1956), og sonum þeirra (sem báðir urðu vélstjórar), Jens (föður mínum) og Jósafat, sem reyndist verða mikill athafnamaður (og ritaði æviminningar sínar: Óttalaus, útg. Skerpla, Rvík 1995, 301 bls.).
Svavar var hrókur alls fagnaðar á samkomustundum með sína harmonikku og einstaklega hæfileikamikill tónlistarmaður, samdi fjölda laga, sem oft heyrðust í Ríkisútvarpinu, ekki sízt í þættinum Óskalög sjómanna, en segja má, að hann hafi verið þeirra tónskáld öðrum fremur, bæði á togaraöld og síldarárunum. Hér syngur Sigurður Ólafsson Sjómannavalsinn:
En í Salnum í Kópavogi söng líka tilkomumikil sópransöngkona í fallegum þjóðbúningi, Berta Dröfn Ómarsdóttir, hinn sama Sjómannavals við undirleik Sigurðar Helga Oddssonar á píanóið.
Á annarri vefslóð þarna á YouTube syngur Ískórinn & Sönghópurinn (alls fjórir karlar og margar konur) Sjómannavalsinn hans Svavars á hrífandi hátt á Vortónleikum í Jóhannesarkirkju í Bergen 2018.
Fallegt er lag Svavars Baujuvaktin, sungið af Smárakvartettinum í Reykjavík:
Og hér er lag hans Eyjan hvíta sungið af Smárakvartettinum -- og annað lag hans, Fossarnir, sungið af sama kvartett, sennilega við undirleik Svavars og Carls Billich.
Þá átti Svavar fjörugt lag á plötu og diski Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar, "Dans Gleðinnar".
Hér eru einkar falleg minningarorð um Svavar Benediktsson við útför hans:
Minning - Karl Svavar Benediktsson tónskáld
Fæddur 20. maí 1913. Dáinn 3. ágúst 1977.
Sunnudagurinn 31. júlí verður minnisstæður i mínum huga, því þann dag lá leið mín til Svavars en hann hafði dvalið í nokkra daga á sjúkrahúsi vegna veikinda sem höfðu þjáð hann. Þegar ég kom inn á stofu þar sem hann átti að liggja var hann ekki þar. Ég settist og beið eftir að hann kæmi en ekkert gerðist. Allt i einu mundi ég eftir að á fyrstu hæð sjúkrahússins er píanó, ég snaraðist niður og auðvitað var hann þar að spila. Hvar ætti hann að vera annarsstaðar?
Tónlistin var hans líf og í henni lifði hann og naut þeirrar gleði og sorgar er hún veitir þeim er skilur. Ég hlustaði andartak á hann spila áður en við hittumst. Hann stóð upp frá hljóðfærinu, faðmaði mig að sér og hlæjandi sagðist hann vera kominn á fyrstu hæð á leiðinni heim. Þetta lýsir því aðeins hvernig hann tók þvi sem að höndum bar, alltaf með þeirri spaugsemi sem honum var gefin, í svo ríkum mæli.
Fyrir framan mig stóð sá sami Svavar sem ég hef þekkt frá því ég fór að muna eða um 37 ár. Við spjölluðum saman í hálftíma, hann lék á als oddi, sagði sögur og naut þess að vera til, og sagðist hitta mig heima næst. Við kvöddumst, og hann bað að heilsa öllum sem mér væru nánastir. Við fylgdumst að lyftunni, horfðumst í augu og skildum í síðasta sinn. Aðeins þremur dögum seinna var hann allur.
Á heiðríkum og fallegum degi dró ský fyrir birtu, en lifið heldur áfram í breyttri rás. Á uppvaxtarárum mínum og okkar bræðranna var Svavar sá maður sem við dáðum mest, hann þessi mikli maður sem lagði heiminn að fótum sér, hann kom og spilaði fyrir okkur þegar við áttum afmæli á jólum og á öllum hátíðisdögum kom hann með nikkuna. Hann fór að lofa okkur að heyra eitt og eitt lag sem hann samdi, löngu áður en þau urðu þjóðkunn, og mikið var hlustað þegar útvarpað var frá danslagakeppni S.K.T. en þar átti hann sín lög sem þá strax slógu í gegn eins og sagt er.
Ekki á þessi kveðja að verða nein úttekt á lífi þessa manns, en hann var ekki allra, átti ótal kunningja, mjög fáa vini, og var einn í fjöldanum, fyrirleit alla hræsni, sagði umbúðalaust þar sem hann þurfti ef því var að skipta, var sama hvort fólk fyrtist við, sá ætíð skoplegu hliðarnar á öllum hlutum, gisti þá sali sem gleðin heldur, og einnig þá er sorgin ræður. Fallegt stef úr lagi eða ljóði gat kallað fram á hvarmana tár og einnig bros. Hann var einstaklega góður við allt smátt og þá sem voru minni máttar, en hafði á þeim það lag sem ekki er öllum gefið. Hann gat á augabragði breytt sorg barnsins i gleði og kallað fram hlátur sem þó virtist svo fjarri.
Mér finnst nú þegar Ieiðir skilja að Svavar hafi alltaf verið sá sami í gegnum öll árin, aldrei elst neitt, alltaf ungur og léttur á fæti og fáir hefðu trúað að þar færi maður sem hafði fjóra um sextugt. Hann var fæddur i faðmi austfirskra fjalla, þangað fór hann á hverju sumri og sótti sinn lífskraft. En er nú þeirri sókn lokið? Nei, aldeilis ekki. Öll þau lög sem hann skildi eftir munu minna á þann sem skóp þau. Í hvert sinn sem harmonikkan ómar munu vinir hans minnast hans og segja: Þetta lag spilaði Svavar einu sinni fyrir mig.
Hann hefði kosið að falla eins og það gerðist. Í fullu fjöri, því aldrei hefði hann viljað íþyngja öðrum, aldrei verða öðrum háður, alltaf frjáls eins og vindurinn.
Dóttur Svavars, Ellen Sigríði, og litlu afabörnunum hans, Önnu og Frey, sendi ég mínar bestu hugsanir á þessum dögum, og veit að þau taka undir með að hann hafi verið besti afi í heimi. Ég þakka elskulegum vini allt. Farðu í friði.
S.S.
Þetta var minningargrein um Svavar í Morgunblaðinu 11. ágúst 1977 (þar reyndar misritaðist Svavarsnafnið í yfirskriftinni, eins og leiðrétt var í blaðinu degi síðar). Með þeirri grein birtist mynd af Svavari, önnur en sú sem hér er, en einnig með hatt á höfði og sést á sömu vefslóð. Hver höfundurinn S.S. er eða var, er mér ókunnugt. Sjálfum er mér Svavar mjög minnisstæður, hæfileikar hans, glaðværð og hlýja hans í minn garð.
(Greinaflokki mínum Namibía undir járnhæl kynþáttakúgunar, verður haldið hér áfram ekki seinna en á morgun.)
Austfirðir, Austurland | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)